* Sumt breytist seint * Sá er hjer lætur nú til sín heyra, heitir Helgi Helgason og er það, eftir tilmælum, aðallega gjört til þess að rödd hans geti heyrst, enda þótt hann kunni að liggja í gröf sinni og hafi gjört það áratugum eða jafnvel öldum saman. Jeg fæddist í Móakoti í Garðahverfi 27.maí 1876 og er því í dag, 27.maí 1948 réttra 72 ára. Foreldrar mínir voru: Helgi Guðmundsson - Jakobssonar - Snorra sonar prests á Húsafelli og Rannveig Magnúsdóttur - Hjaltasonar - Þorbergssonar, prests á Eyri. Systkini mín, er upp komust voru: Sigríður, sem bjó á Dönustöðum í Laxárdal og síðar í Bolungarvík, Guðmundur bæjargjaldkeri í Hafnarfirði og Magnús Thorberg símastöðvarstjóri og útgerðamaður á Ísafirði. Á uppvaxtarárum mínum - 11. - 18 ára átti jeg heima í Hafnarfirði og varð gagnfræðingur frá Flensborgarskóla vorið 1892, en haustið 1894 flutti jeg til Reykjavíkur og gjörðist verslunarmaður hjá Chr. Zimsen, ræðismanni Frakka. Við þá verslun, fyrst eign Chr. Zimsen, síðar eign sonar hans Jes og nú eign h/f. Járnvöruverslun Jes Zimsen hefi starfað óslitið nær 54 ár og geri enn. Þetta starf hefir því verið aðallífsstarf mitt, en sem aukastörf mætti nefna að jeg var örlítið meðstarfandi í sjónleikjum í Hafnarfirði, sem Templarar þar höfðu með höndum og sömuleiðis eftir að jeg kom til Reykjavíkur. Svo gerðist jeg fjelagi í Leikfjelagi Reykjavíkur á 1.starfsári þess og tók þátt í leikjum með því frá 27.Oktober 1898, þar sem jeg ljek Bertelsen í Drengurinn minn og óslitið, en strjálla síðari árin þangað til 21.Febr 1924 og ljek þá Kára eða Fjalla-Eyvind í samnefndu leikriti eftir Jóhann Sigurjónsson. Var því starfstími minn þar full 25 ár. Annað aukastarf hefi jeg haft með höndum um áratugi, sem er innan Góðtemplara-reglunnar. Jeg gerðist fjelagi í barnastúkunni Kærleiksbandið Nr.2 í Hafnarfirði í maí 1887 - þá 11 ára, og hefi verið Reglunnar fjelagi frá þeim tíma, eða 61 ár. Úr barnastúkunni fór jeg í St. Morgunstjarnan Nr.11 í Hafnarfirði, þegar jeg hafði aldur til eða 10.Nóvember 1889 og svo fluttist jeg í St. Einingin Nr.14 í Reykjavík 1.Janúar 1903 og er þar enn. Þetta hafa því verið tilbreytingalítil störf, enda hafi jeg í öllum tilfellum unað mjer vel, þar sem jeg var kominn og er jeg forsjóninni þakklátur fyrir góða handleiðslu og vellíðan. Það að gerast fjelagi Góðtemplarareglunnar á unga aldri og halda sig innan vjebanda hennar og starfa fyrir hana, er einhver sú mesta gæfa sem - hver sá sem gerir - verður aðnjótandi. Jeg hef á minni löngu æfi sjeð svo margan góðan dreng falla fyrir freistingum Bakkusar og veit því um margan, sem hefir eyðilagt og lagt að velli fyr en verið hefði, ef hann hefði leitt hann hjá sjer og aðra sem hafa eyðilagt indæl heimili sín orðið hafa andlegir og líkamlegir aumingjar. Enginn ætti að gera sig að minni manni, með því að neyta víns, því enginn verður meiri maður fyrir það, þvert á móti er það til friðarspillirs, ósóma, fjársóunar, heilsuspillis, armæðu, örvæntingar og eyðileggingar á sál eða líkama og oftast hvorutveggja. Er nokkur sá er óskar sjer eða sínum slíkra afdrifa ? Ábyggilega enginn. Enginn þarf að verða fyrir tjóni á líkama eða sál af völdum áfengis. Enginn. En til þess er eitt ráð og ekki nema eitt. Að drekka aldrei fyrsta staupið. Guð gefi landi voru og þjóð hamingjuríka framtíð og gefi að sem flestir bornir og óbornir meðal þjóðar vorrar breyti þannig. Verið öll blessuð og sæl. |
|